Afreksmál
Um áramótin síðustu sagði Jussi Pitkanen upp starfi sínu sem afreksstjóri/landsliðsþjálfari. Starfið var auglýst laust til umsóknar hér á landi og í Evrópu og barst mikill fjöldi umsókna. Að loknu umsóknarferli var Skotinn Gregor Brodie ráðinn í starfið og honum til aðstoðar Ólafur Björn Loftsson.
Okkar bestu kylfingar stóðu í ströngu á árinu og árangurinn nokkuð góður. Meðal helstu afreka ársins má nefna:
Karlasveit GKG lenti í öðru sæti á Evrópumóti golfklúbba, sem fram fór hjá Golf du Médoc í Frakklandi.
Kvennasveit GKG lenti í 7. sæti á Evrópumóti golfklúbba sem fram fór í Ungverjalandi á Balaton vellinum, Hulda Clara Gestsdóttir sigraði í einstaklingskeppninni.
Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, og Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, hafa farið upp um nokkur þúsund sæti á styrkleikalista áhugakylfinga, WAGR, á nokkrum mánuðum og eru í dag efst okkar kylfinga.
Íslenska karlalandsliðið náði besta árangri íslensku landsliðanna þegar liðið hafnaði í 12. sæti á Evrópumótinu, sem fram fór í Ljunghusen í Svíþjóð.
Þrír karlkylfingar komust inn á lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem er metfjöldi, en aðeins tveir kylfingar höfðu áður náð inn á lokaúrtökumótið.
Haraldur Franklín Magnús lék vel á Nordic Golf League atvinnumótaröðinni og tryggði sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili með því að enda í fjórða sæti stigalistans.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson sigraði á þremur mótum á Nordic Golf League atvinnumótaröðinni og tryggði sér þar með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili.
Axel Bóasson endaði á meðal 20 efstu kylfinganna á stigalista Nordic Golf League atvinnumótaröðinni.
Bjarki Pétursson var eini áhugakylfingurinn sem komst á lokaúrtökumót fyrir Evrópsku mótaröðina.
Valdís Þóra Jónsdóttir er í ágætri stöðu að halda keppnisrétti sínum á Evrópumótaröðinni. Keppnistímabilinu er ekki lokið hjá Valdísi Þóru. Hún verður með takmarkaðan keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum á næsta tímabili þar sem hún komst inn á 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á LPGA og Symetra atvinnumótaröðunum. Ólafía Þórunn verður með keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni á næsta tímabili. Ólafía Þórunn endaði í 140. sæti á Symetra og 179. sæti á LPGA.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék mestmegnis á LET Access atvinnumótaröðinni. Hún verður á meðal keppenda á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina sem fram fer í janúar á næsta ári.
Að öðru leyti er vísað til skýrslu afreksstjóra GSÍ um árangur okkar landsliðsfólks og atvinnukylfinga á árinu.
Forskot, afrekssjóður kylfinga, hélt áfram göngu sinni á árinu og samanstendur Forskotsfjölskyldan af sjö aðilum – Golfsambandi Íslands, Íslandsbanka, Eimskip, Valitor, Icelandair Group, Bláa Lóninu og Verði. Hver aðili leggur sjóðnum til 3,5 milljónir króna á hverju ári sem þýðir að 24,5 milljónum króna er úthlutað árlega úr sjóðnum til okkar fremstu kylfinga. Golfsamband Íslands vill þakka aðilum sjóðsins fyrir allan þann ómetanlega stuðning sem þeir hafa sýnt íslenskum afrekskylfingum.
Árið 2016 gerðu Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands með sér samning sem hefur falið í sér stóraukin framlög til íslensks afreksíþróttafólks. Á þessu ári var 400 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum og hlaut golfsambandið úthlutun upp á allt að 37.9 milljónir en GSÍ er í hópi svokallaðra A-sérsambanda innan sjóðnum. Viljum við nota tækifærið og þakka ÍSÍ fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.
Rekstur sambandsins
Rekstraráætlun golfsambandsins gerði ráð fyrir um lítilsháttar hagnaði á árinu og stóðust þær áætlanir. Heildarvelta sambandsins var tæpar 202 milljónir króna, samanborið við tæpar 199 milljónir króna árið 2018.
Stjórn golfsambandsins reynir ávallt að sýna varkárni og aðhald í rekstri og er það stefna stjórnar að eigið fé sambandsins verði ekki lægra en 20% af heildargjöldum þess á hverjum tíma, en aldrei lægra en 40 milljónir króna, til að tryggja að hægt sé að taka við óvæntum áföllum. Ánægjulegt er að segja frá því að við höfum nú náð þessu markmiði og er eigið fé sambandsins um 43 milljónir króna.
Að lokum
Árið sem nú er að líða er það besta sem við höfum fengið í meira en áratug. Fjölgun kylfinga var 4% á árinu og hefur hún hefur ekki verið meiri í tíu ár. Fjöldi leikinna golfhringja var í hámarki og rekstur golfklúbba gekk afar vel þegar á heildina er litið. Fjöldi atvinnukylfinga hefur aldrei verið meiri og stuðningur við okkar bestu áhugakylfinga fer vaxandi með hverju árinu.
Golfíþróttin er að breytast hægt og bítandi. Smátt og smátt er íþróttin að nútímavæðast og þær breytingar sem hafa átt sér stað á þessu ári, og munu halda áfram að eiga sér stað á næstu tveimur árum, eru vægast sagt spennandi. Í þeim felast mikil tækifæri yfir íslenskt golf og það er mikil tilhlökkun að takast á við þau.
Að lokum vill stjórn Golfsambands Íslands þakka öllum forsvarsmönnum, starfsfólki og sjálfboðaliðum golfklúbbanna fyrir samstarfið á árinu.