Skýrsla stjórnar

Kæru félagar.

Nú þegar 77. starfsári Golfsambands Íslands er að ljúka er tilefni að gera upp golftímabilið og rifja upp helstu viðfangsefni ársins.

Líkt og undanfarin ár hefur stjórn golfsambandsins og starfsfólk unnið samkvæmt þeirri stefnu sem samþykkt var á Golfþingi árið 2013. Sú stefna er nú að líða undir lok og er það von okkar að á þessu Golfþingi takist sátt um nýja stefnu til næstu átta ára.

Stjórn og starfsfólk
Stjórn Golfsambands Íslands var þannig skipuð á síðasta starfsári:

Forseti:
Haukur Örn Birgisson, GO

Stjórn:
Bergsteinn Hjörleifsson GK, formaður upplýsingatækninefndar
Eggert Á. Sverrisson GF,  varaforseti
Gunnar K. Gunnarsson GV,  formaður umhverfis- og vallarnefndar
Hansína Þorkelsdóttir GKG, ritari og formaður útbreiðslunefndar
Hörður Geirsson GK,  formaður mótanefndar
Hulda Bjarnadóttir NK, formaður útgáfunefndar
Jón B. Stefánsson GR, formaður landsnefndar eldri kylfinga
Jón S. Árnason GA, formaður afreksnefndar
Kristín Guðmundsdóttir GÖ, gjaldkeri og formaður fjárhagsnefndar
Þorgerður K. Gunnarsdóttir GK, formaður laganefndar

Á skrifstofu sambandsins störfuðu þeir Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri, Stefán Garðarsson, markaðs- og sölustjóri, Arnar Geirsson, kerfis- og skrifstofustjóri, Sigurður Elvar Þórólfsson, útgáfustjóri, Gregor Brodie, afreksstjóri, og Ólafur Björn Loftsson, aðstoðarafreksstjóri. Þá starfaði Einar Ásbjörnsson hjá sambandinu yfir sumarmánuðina við mótahald.

Stjórn golfsambandsins hefur haldið alls 14 fundi á starfsárinu og hafa þeir verið vel sóttir af stjórnarmönnum. Á fundunum hafa stjórnarmenn átt góðar og gagnlegar umræður, skipst á skoðunum en ávallt komist að sameiginlegri niðurstöðu. Stjórn hefur haldið áfram uppteknum hætti og birtir allar fundargerðir stjórnarfunda á heimasíðu sambandsins, www.golf.is.

Starfsnefndir sambandsins hafa verið opnar félagsmönnum úr hreyfingunni og er óhætt að segja að fjölmargir hafi komið að starfi golfsambandsins með þessum hætti. Við viljum færa öllum þessum einstaklingum okkar bestu þakkir fyrir samstarfið á tímabilinu.

Mótahald

Á þessu ári fóru fram 33 golfmót á vegum GSÍ. Einstaklingsmótin voru 19 talsins en liðamótin 14. Alls voru 19 golfklúbbar sem tóku að sér að halda mót á vegum GSÍ og erum við þakklát fyrir þann velvilja sem klúbbar hafa sýnt mótastarfi sambandsins á árinu.

Á mótaröð þeirra bestu 2018-2019 tóku 164 keppendur þátt, 126 karlar og 38 konur. Keppendur komu frá 23 klúbbum. Til samanburðar tóku 150 keppendur þátt á tímabilinu 2017-2018, 32 konur og 118 karlar frá 19 golfklúbbum.

Við viljum nota tækifærið og óska öllum sigurvegurum ársins til hamingju með árangurinn og ekki síst þeim Guðmundi Ágústi Kristjánssyni og Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur sem urðu Íslandsmeistarar í Grafarholtinu.

Íslandsbankamótaröðin gekk vel og var þátttakan góð. Alls tóku 198 þátttakendur, frá samtals 15 golfkúbbum, þátt á mótaröðinni en til samanburðar voru þeir 178 árið 2018, frá samtals 14 golfkúbbum. Áskorendamótaröðin, mótaröð þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref i keppnisgolfi, var vel sótt. Mótaröðin hefur eflst eftir að nýtt fyrirkomulag var tekið upp fyrir tveimur árum en á Áskorendamótaröðinni eru allir keppendur ræstir út á sama tíma.

Það er því miður of langt mál að telja upp alla Íslandsmeistarana en það er full ástæða til að ítreka hamingjuóskir til þeirra. Þau eiga framtíðina fyrir sér.

Við viljum að upplifun keppenda af mótahaldi okkar sé framúrskarandi. Það verður hins vegar að viðurkennast að skortur á fjármagni og þá sérstaklega starfsfólki við mótahaldið sníðir okkur þrengri stakk en við hefðum viljað. Það er afar krefjandi og tímafrekt fyrir fáa starfsmenn að halda utan um 36 golfmót á einu sumri. Þetta veldur því að okkur tekst ekki að sinna öllum mótunum okkar af þeirra alúð sem þau eiga skilið. Ljóst er að hér þarf að horfa til nýrra leiða og tekur ný stefnumótun sambandsins mið af þessu og leggur fram lausnir.

Ný stefna GSÍ 2020-2027

Þann 11. júní 2018 skipaði stjórn GSÍ sérstakan stýrihóp til þess að leiða vinnu í tengslum við nýja stefnumótun GSÍ til næstu ára. Vinna við stefnumótunina hefur staðið yfir í eitt og hálft ár og að vinnunni hefur komið óteljandi fjöldi einstaklinga.

Stjórn GSÍ hefur lagt sig fram við að kynna afrakstur vinnu sinnar jafnóðum undanfarna mánuði og hefur stjórnarfólki og framkvæmdastjórum golfklúbba verið sendar upplýsingar, auk þess sem skoðanakannanir hafa verið gerðar um markmið og áherslur. Þá hefur stjórn golfsambandsins boðið öllum golfklúbbum landsins til fundar um drögin að stefnumótuninni og ferðaðist hún um allt landið í því skyni. Viðbrögðin við þessu voru afar góð og erum við afar þakklát öllu því stjórnarfólki og starfsfólki golfklúbba sem gaf sér tíma til þess að setjast niður með okkur og ræða stefnu sambandsins. Á fundunum kom bæði fram gagnrýni og lof og tóku stefnudrögin breytingum í takt við framkomnar ábendingar.

Endanleg drög nýrrar stefnu GSÍ liggja fyrir á þessu Golfþingi til umræðu og afgreiðslu.

Stórafmæli

Á þessu ári fögnuðu nokkrir aðilar innan hreyfingarinnar stórafmælum og eru hamingjuóskir til eftirfarandi klúbba og félagasamtaka áréttaðar.
Golfklúbbur Reykjavíkur 85 ára
Golfklúbbur Mývatnssveitar 30 ára
Golfklúbburinn Dalbúi 30 ára
Golfklúbburinn Hamar 30 ára
Golfklúbbur Staðarsveitar 20 ára
Golfklúbburinn Skrifla 10 ára
Golfklúbbur Vopnafjarðar 10 ára
Golfklúbburinn Lundur 10 ára
Golfklúbburinn Tuddi 10 ára

Útgáfu- og fræðslumál

Tímaritið Golf á Íslandi kom út 5 sinnum á árinu og útgáfa rafræna fréttabréfsins hélt áfram frá fyrri árum. Alls voru 32 fréttabréf gefin út á árinu og fá allir félagsmenn með skráð netfang fréttabréfið sent til sín. Til samanburðar voru fréttabréfin alls 26 á árinu 2018. Alls voru birtar rúmlega 600 fréttir, greinar og viðtöl á golf.is á tímabilinu nóvember 2018 til nóvember 2019. Forsíða golf.is hefur fengið rúmlega 5,2 milljónir flettinga frá því að fréttavefurinn var opnaður í nóvember 2015.

Heimsóknir á golf.is voru mældar á ný eftir nokkurt hlé, af modernus.is. Mælingarnar sýndu fram á að að heimsóknir á golf.is eru með því mesta sem gerist á íslenskum vefsíðum yfir hásumarið. Golf.is var oftar en ekki í þriðja sæti á veflista modernus.is. Vikulegir notendur voru yfir 34.000 þegar mest lét.

Ljósmyndasafn GS, sem er að finna á gsimyndir.netÍ stækkar með hverju árinu sem líður og er mikið notað af fjölmiðlum og einstaklingum. Frá því í nóvember 2018 til dagsins í dag hefur myndasafn GSÍ fengið tæplega 1 milljón flettingar. Helstu fréttamiðlar landsins nota myndir úr myndabankanum sem hefur að geyma þúsundir mynda sem eru flestar nafnamerktar. Verðmæti safnsins er því umtalsvert fyrir golfhreyfinguna og söguskráningu.

Útgáfunefnd GSÍ vekur athygli á því að í tímaritinu Golf á Íslandi er ávallt pláss fyrir áhugaverðar greinar, myndir og annað sem golfklúbbar landsins hafa áhuga á að koma á framfæri.

Golfsamband Íslands hefur haldið áfram notkun sinni á samfélagsmiðlum en þar má helst nefna Facebook, Instagram og Twitter. Þannig hefur okkur tekist að ná til stærri hóps en áður í umfjöllun okkar um golfíþróttina. Bein útsending frá Íslandsmótinu í golfi leikur jafnframt stórt hlutverk þegar kemur að útbreiðslu og auglýsingu íþróttarinnar.

Upplýsingakerfi hreyfingarinnar

Störf upplýsingatækninefndar hafa staðið yfir undanfarin ár og erum við afar þakklát öllum þeim sem komið hafa að þessari vinnu, sem er einn mikilvægasti þátturinn í starfi sambandsins.

Afrakstur þeirrar miklu vinnu sem upplýsingatækninefnd hefur staðið fyrir undanfarin ár var kynntur á aukagolfþingi sem haldið var þann 11. maí 2019. Á þinginu var kynntur samningur golfsambandsins við hugbúnaðarfyrirtækið Golfbox. Í aðdraganda samningsgerðarinnar lá fyrir að hreyfingin yrði í sameiningu að taka ákvörðun um að færa sig frá eigin hugbúnaðarkerfi yfir í nýtt kerfi. Það var því einstaklega gleðilegt þegar samningurinn við Golfbox var samþykktur einróma á aukagolfþinginu. Þegar er hafin vinna við innleiðingu kerfisins og til stendur að taka það í notkun á vormánuðum 2020.

Nýjar golfreglur og nýtt forgjafarkerfi

Breytingar eru sagðar gerast hægt í golfíþróttinni. Í því ljósi er óhætt að fullyrða að hlutirnir hafi færst úr stað á ógnarhraða, þegar litið er til þeirra breytinga sem eru að eiga sér stað um þessar mundir á þremur stöðum – allt á frekar skömmum tíma.

Í fyrsta lagi tóku nýjar golfreglur gildi í byrjun þessa árs. Eins og flestir vita þá eru golfreglurnar endurskoðaðar á fjögurra ára fresti en sú endurskoðun kallar sjaldnast á miklar breytingar. Að þessu sinni var reglunum breytt umtalsvert og í raun má segja að nýjar golfreglur hafi verið kynntar til leiks. Kynning og innleiðing hinna nýju reglna gekk vonum framar og ekki verður annað séð en að kylfingar séu, upp til hópa, ánægðir með nýjungarnar. Golfsambandið vill koma sérstökum þökkum á framfæri við Hörð Geirsson, sem tók það upp á arma sína að færa hinar nýju golfreglur í íslenskan búning.

Í öðru lagi munu forgjafarreglurnar taka miklum breytingum í upphafi næsta árs. Á Íslandi hefur verið leikið samkvæmt EGA forgjafarkerfinu en frá og með næstu áramótum mun verða leikið samkvæmt einu og sama kerfinu um allan heim. Eins og flestir vita þá hefur staðið yfir vinna frá árinu 2011 í tengslum við alþjóðlegt forgjafarkerfi (World Handicap System) sem miðaði að því að sameina öll forgjafarkerfi heimsins. Þeirri vinnu lauk á þessu ári og nú standa yfir undirskriftir milli allra forgjafarkerfanna og WHS, annars vegar, og einstakra golfsambanda og álfusambanda þeirra, hins vegar. Til stendur að taka kerfið í notkun 1. janúar 2020 en ákveðinn sveigjanleiki verður þó veittur til þeirra þjóða sem ekki verða tilbúnar fyrir þann tíma. Golfsambandið hefur samþykkt fyrir sitt leyti að taka kerfið í notkun 1. mars 2020 en kerfið verður hluti af hinu nýja Golfbox kerfi. Þessum breytingum verður fylgt úr hlaði strax í upphafi næsta árs með umfangsmiklum kynningum og er vinna við þá kynningu þegar hafin.

Í þriðja lagi þá standa yfir umræður um væntanlegar breytingar á reglum um áhugamennsku. Þar verður spjótunum beint að áratugalöngum aðskilnaði atvinnumanna og áhugamanna, með það fyrir augum að draga úr mörkunum milli þessara tveggja flokka kylfinga. Vonir standa til að nýjar reglur taki gildi árið 2023.

Alþjóðasamstarf

Frá árinu 2017 hefur GSÍ verið aðili að European Disabled Golf Association (EDGA) en með aðkomu að EDGA gefst íslenskum kylfingum, sem eiga við fötlun að stríða, betri kostur á þátttöku í alþjóðlegum golfmótum.

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, hefur setið í framkvæmdastjórn Evrópska golfsambandsins (EGA) síðastliðin fjögur ár en árið 2017 var hann kjörinn næsti forseti EGA (President-Elect). Á aðalfundi Evrópska golfsambandsins, sem fram fór um síðustu helgi, var Haukur Örn kjörinn forseti EGA með öllum greiddum atkvæðum. Hann er fyrstu Íslendingurinn sem sinnir embættinu og er ekki nokkur vafi að í því felst mikil viðurkenning og tækifæri fyrir golfíþróttina á Íslandi.

Afreksmál

Um áramótin síðustu sagði Jussi Pitkanen upp starfi sínu sem afreksstjóri/landsliðsþjálfari. Starfið var auglýst laust til umsóknar hér á landi og í Evrópu og barst mikill fjöldi umsókna. Að loknu umsóknarferli var Skotinn Gregor Brodie ráðinn í starfið og honum til aðstoðar Ólafur Björn Loftsson.

Okkar bestu kylfingar stóðu í ströngu á árinu og árangurinn nokkuð góður. Meðal helstu afreka ársins má nefna:

Karlasveit GKG lenti í öðru sæti á Evrópumóti golfklúbba, sem fram fór hjá Golf du Médoc í Frakklandi.

Kvennasveit GKG lenti í 7. sæti á Evrópumóti golfklúbba sem fram fór í Ungverjalandi á Balaton vellinum, Hulda Clara Gestsdóttir sigraði í einstaklingskeppninni.

Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, og Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, hafa farið upp um nokkur þúsund sæti á styrkleikalista áhugakylfinga, WAGR, á nokkrum mánuðum og eru í dag efst okkar kylfinga.

Íslenska karlalandsliðið náði besta árangri íslensku landsliðanna þegar liðið hafnaði í 12. sæti á Evrópumótinu, sem fram fór í Ljunghusen í Svíþjóð.

Þrír karlkylfingar komust inn á lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar, sem er metfjöldi, en aðeins tveir kylfingar höfðu áður náð inn á lokaúrtökumótið.

Haraldur Franklín Magnús lék vel á Nordic Golf League atvinnumótaröðinni og tryggði sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili með því að enda í fjórða sæti stigalistans.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson sigraði á þremur mótum á Nordic Golf League atvinnumótaröðinni og tryggði sér þar með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili.

Axel Bóasson endaði á meðal 20 efstu kylfinganna á stigalista Nordic Golf League atvinnumótaröðinni.

Bjarki Pétursson var eini áhugakylfingurinn sem komst á lokaúrtökumót fyrir Evrópsku mótaröðina.

Valdís Þóra Jónsdóttir er í ágætri stöðu að halda keppnisrétti sínum á Evrópumótaröðinni. Keppnistímabilinu er ekki lokið hjá Valdísi Þóru. Hún verður með takmarkaðan keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum á næsta tímabili þar sem hún komst inn á 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á LPGA og Symetra atvinnumótaröðunum. Ólafía Þórunn verður með keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni á næsta tímabili. Ólafía Þórunn endaði í 140. sæti á Symetra og 179. sæti á LPGA.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék mestmegnis á LET Access atvinnumótaröðinni. Hún verður á meðal keppenda á lokaúrtökumótinu fyrir LET Evrópumótaröðina sem fram fer í janúar á næsta ári.

Að öðru leyti er vísað til skýrslu afreksstjóra GSÍ um árangur okkar landsliðsfólks og atvinnukylfinga á árinu.

Forskot, afrekssjóður kylfinga, hélt áfram göngu sinni á árinu og samanstendur Forskotsfjölskyldan af sjö aðilum – Golfsambandi Íslands, Íslandsbanka, Eimskip, Valitor, Icelandair Group, Bláa Lóninu og Verði. Hver aðili leggur sjóðnum til 3,5 milljónir króna á hverju ári sem þýðir að 24,5 milljónum króna er úthlutað árlega úr sjóðnum til okkar fremstu kylfinga. Golfsamband Íslands vill þakka aðilum sjóðsins fyrir allan þann ómetanlega stuðning sem þeir hafa sýnt íslenskum afrekskylfingum.

Árið 2016 gerðu Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands með sér samning sem hefur falið í sér stóraukin framlög til íslensks afreksíþróttafólks. Á þessu ári var 400 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum og hlaut golfsambandið úthlutun upp á allt að 37.9 milljónir en GSÍ er í hópi svokallaðra A-sérsambanda innan sjóðnum. Viljum við nota tækifærið og þakka ÍSÍ fyrir gott samstarf á árinu sem er að líða.

Rekstur sambandsins

Rekstraráætlun golfsambandsins gerði ráð fyrir um lítilsháttar hagnaði á árinu og stóðust þær áætlanir. Heildarvelta sambandsins var tæpar 202 milljónir króna, samanborið við tæpar 199 milljónir króna árið 2018.

Stjórn golfsambandsins reynir ávallt að sýna varkárni og aðhald í rekstri og er það stefna stjórnar að eigið fé sambandsins verði ekki lægra en 20% af heildargjöldum þess á hverjum tíma, en aldrei lægra en 40 milljónir króna, til að tryggja að hægt sé að taka við óvæntum áföllum. Ánægjulegt er að segja frá því að við höfum nú náð þessu markmiði og er eigið fé sambandsins um 43 milljónir króna.

Að lokum

Árið sem nú er að líða er það besta sem við höfum fengið í meira en áratug. Fjölgun kylfinga var 4% á árinu og hefur hún hefur ekki verið meiri í tíu ár. Fjöldi leikinna golfhringja var í hámarki og rekstur golfklúbba gekk afar vel þegar á heildina er litið. Fjöldi atvinnukylfinga hefur aldrei verið meiri og stuðningur við okkar bestu áhugakylfinga fer vaxandi með hverju árinu.

Golfíþróttin er að breytast hægt og bítandi. Smátt og smátt er íþróttin að nútímavæðast og þær breytingar sem hafa átt sér stað á þessu ári, og munu halda áfram að eiga sér stað á næstu tveimur árum, eru vægast sagt spennandi. Í þeim felast mikil tækifæri yfir íslenskt golf og það er mikil tilhlökkun að takast á við þau.

Að lokum vill stjórn Golfsambands Íslands þakka öllum forsvarsmönnum, starfsfólki og sjálfboðaliðum golfklúbbanna fyrir samstarfið á árinu.


Haukur Örn Birgisson,
forseti Golfsambands Íslands

Menü